Engar fréttir enn eftir ferð

Sæl verið þið.

Nú erum við komin aftur heim eftir tæplega viku ferð í Noregi. Hún var ansi skemmtileg. Lentum í Oslo og gistum á hóteli við völlinn. Þar fórum við í hjólatúr um sveitirnar, frekar kalt í veðri en það hafði snöggkólnað í evrópu í byrjun maí. Það fyrsta sem mér fannst alveg frábært voru stóru voldugu trén þarna úti. Stofninn á trjánum var oft svo sver að breiddin var á við þrjár manneskjur.
Eftir smá skoðunarferð um Osló daginn eftir lendingu þá var ferðinni haldið til Kristiansand. En þar var ég búin að stefna á nám. Við vorum fjóra tíma í lest þangað niður með landinu. Gistum svo þar í fjórar nætur í pínulitlu herbergi sem hafði að geyma koju, skrifborð og klósett. Í því herbergi þurftum við því miður að hanga meir en við ætluðum okkur því það ringdi svo á okkur restina af ferðinni. Á degi tvö í Noregi var þó smá sól og við gengum uppí hlíðar Kristiansand þar sem við sáum yfir borgina. Fórum svo inní skóg og sátum við tjarnir og hlustuðum á þögn og litla fugla taka lagið.
Á rigningardögunum vorum við bara kósý inni litlu “kompunni” okkar að sækja um vinnur og húsnæði. Alltaf gott að hafa marga bolta á lofti ef eitthvað skildi ekki ganga upp.
Í Noregi er verðið himinhátt (miðað við íslenska krónu), sérstaklega á matvöru svo við reyndum að vera hagsýn. Lifðum á kexi, osti og rauðvíni nánast allan tímann :P
Ég fór í viðtal til Morgans sem er yfir grafísku hönnunardeildinni í Noroff fagskole. Hann sýndi mér aðstöðuna og sagði mér frá náminu í heild sinni. Mér leist ágætlega á en við frekari umhugsun þá set ég námið á bið í allavega ár. Ástæðurnar eru bæði þær að erfitt er að hella sér beint í nám sem allt er á tungumáli sem maður skilur illa. Einnig er námið mjög dýrt og ekki svo ólíkt náminu sem ég kláraði hér heima sem er grafísk miðlun. Eini munurinn er kannski sá að maður fær að ráða sér meira sjálfur, koma sjálfur með hugmyndir og nýta hæfileika sína meira, flottari tæki og tól eru einnig á boðstólnum.
Við vorum í Kristiansand í fjóra daga og fórum einu sinni á pöbb, einu sinni á strönd og tvisvar út að borða. Ægilega góður matur, góður ískaldur bjór og skemmtilegar local fótboltabullur sem við hittum og spjölluðum við. Strandlengjan í Kristiansand er líka ægilega falleg, grænar eyjar úti við sjóndeildarhringinn, hvítir svanir líða eftir ljósbláum sjónum sem sækir geisla sólarinnar og breytir í skínandi gull.
Lokadagur ferðarinnar rann upp og rúta var tekin frá Kristiansand og upp í Arendal. Tekum um 50 min. ferðin. Þar settumst við inná afar kósý kaffihús. Ég var orðin sjóuð í norskunni og pantaði kaffi fyrir mig og Frey á norsku. Eftir gott kaffistopp og umræðu um hvert ferðinni var heitið lögðum við út í rigninu og smá golu. Ég keypti mér eldrauða regnhlíf og gekk ákveðnum skrefum inná ferðaskrifstofur, kaffihús og dagblöð í leit að vinnu meðan Freyr fór á vinnumiðlanir og viðtöl vegna vinnu í Grimstad.
Seinnipartinn fórum við svo aftur til Oslo og gistum hjá vini tengdapabba honum Jóni Árna, sem heitir Bogi. Bogi og Annette voru góðir gestgjafar og var komið fram við okkur eins og við værum á hóteli. Alveg mega kósý og sýndi okkur enn meir hversu gott fjölskyldufólk hefur það í Noregi. Búa í húsi sem þau eiga pening í en hækkar ekki bara með árunum. Fallega hluti og búa í mjög góðu hverfi fyrir utan stórborgina.
En nú erum við komin heim og bíðum eftir svörum. Því miður fengum við ekki gula húsið úti á eyjunni þar sem Freyr er ekki kominn með vinnu enn. Hann bíður svars frá alþjóðlegu fyrirtæki í Grimstad. Þar eru tvær stöður sem hann er líklegur til að sinna.
Ég er enn að finna nákvæmlega hvað ég vil gera. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á tungumálum sem og list, því er ég afar spennt fyrir að læra spænsku sem og auðvitað norsku þegar ég kem út.
Það verður allavega nóg að brasa og vonandi ég fái eitthvað að gera líka þegar út er komið :)

Har de bra!

Þá er komin heildarmynd á ferðina :)

Búinn að vera höfuverkur að púsla þessari ferð saman sem við förum núna eftir viku, en þetta er allt að koma :)

Við fljúgu semsagt út 2 maí (föstudag) og gistum í Osló eina nótt þar sem við komum frekar seint. Tökum svo lest til Kristiansand á laugardeginum og þar erum við með ágætis gistingu. Skoðum borgina á sunnudeginum og skoðum jafnvel eina íbúð. Næstu tvo dagana fer ég í skólann að hitta Morgan sem er yfir grafísku deildinni í skólanum. Freyr fer á vinnumiðlanir og sækir um fleiri vinnur þar sem hann er ekki kominn með neitt ennþá. Á miðvikudeginum ætlum við svo að eyða deginum í Arendal og skoða alveg æðislegt hús sem stendur efst á Tromoya. Það er eyja við suðurströndina. Það er málað hágult og er á tveimur hæðum. Það stendur það hátt að maður sér víst yfir haf og skóga svo það er nú algjör draumur alveg. Freyr þyrfti út í skóg til þess að höggva í eldiviðinn því stofan og gangur er hitað upp með kamínu. Í því býr fimm manna fjölskylda frá Belgíu og hafa þau leygt það í sex ár og líkar vel þar. Það vel að þau eru að fara að kaupa sér hús sjálf nálægt, eða í nágrenni Arendals.

55_124897578.jpg

Eftir stopp þar og vinnuumsóknir þá rennum við aftur inní Osló og svo heim.

Við vonum svo að allt skýrist frekar eftir þessa ferð til Norge, vonandi fljúgum við svo út 11 júlí með allt klappað og klárt og vonandi á leið í hágula húsið með furuskógi allt í kring. Heyrumst eftir ferðina :)
Tjá!

Noregur til prufu 2 maí!

Þá er það ákveðið. Við förum til Noregs 2 maí til prufu. Þ.e. við lendum í Osló og gistum þar eina nótt. Förum svo með lest yfir til Kristiansand þar sem við fáum vonandi að skoða húsnæði. Um kvöldið tökum við svo ferju yfir í eyjuna, Kappeloya. Þar verðum við með gistingu á þessum fallega stað sem Ny-Hellesund er. Við kúplum okkur svo niður sun-mán. Og á mánudeginum getur Freyr minn hringt í vinnuveitendur og vinnumiðlanir (ef hann verður þ.e.a.s ekki kominn með vinnuviðtal). Síðustu tvo dagana getum við svo farið yfir í Kristiansand og skoðað fleiri húsnæði, ég fer á fund í skólanum og Freyr vonandi í viðtöl. Á fimmtudeginum fljúgum við svo heim aftur.

Svo þetta verður forvitnilegt og vonandi skemmtileg ferð allt í senn. Enda ómögulegt að flytja til lands sem maður hefur aldrei heimsótt. Því þó mig hafi dreymt um Noreg núna í nokkur ár þá hef ég aðeins komið til Svíþjóðar og Danmerkur. Alveg 10 ár síðan líka!

En draumórakonan Sandra sér fyrir sér stundirnar á eyjunni með mínum heittelskaða alveg æðislegar. Þar sem rauðmáluð hús liggja við klettastrendur, sjórinn sleikir sólríkar strandlengjur og grænir skógar gæjast á víð og dreyf um þessar mörgu eyjar sem umlykja suðurströnd Noregs.

Enn lærum við nokkur orð í norsku þó við séum langt frá því að vera búin að læra málið og undirbúum börnin undir flutningana í huganum.

Allt veltur þetta þó á því að eitthvað komi úr vinnumálum hjá Frey sem og húsnæðismálum í kjölfarið. Þá getum við farið að hnýta lausa enda :)

Þangað til næst. Ha en fin dag og farvel til neste gang!

_jfu0148_slide.jpgsorlandet_nyhellesund_740.JPG

Nú er nóg að gera! :)

Já nú er heldur betur nóg að gera. Við erum farin að sækja um íbúðir og hús þarna úti og má áætla að ég sé búin að senda póst á 20 manneskjur varðandi íbúð. Það er greinilegt að einbýlishús eru í meirihluta og ekki oft að maður sjái fjölbýli, en tvíbýli og raðhús eru einnig algeng. Svo byggja norðmenn oftar en ekki heldur lítil hús, en fyrir þeim eru 90 fm heilmikið þó svo að finnist stór hús inná milli. Eins og í sveitum og úthverfum. Norðmenn eru svo krúttlegir og þar sem við lendum er útlit og umhverfi sko ekki skítt. Kristiansand eða Kristjánssandur á góðri íslensku (við íslendingar þurfum alltaf að vera með okkar heiti yfir allt), já þessi borg er þekkt fyrir að vera olíuborg og umhverfið eru strendur og aftur strendur með nokkrum vötnum og háum skógum. Svo eru grænar eyjar á víð og dreif rétt fyrir utan. Mig hefur dreymt um þennan stað í átta ár. En þó húsin séu sum lítil þá er oft framlengt með útihúsum, en þau eru oft krúttlega máluð og vel til höfð til hliðar við húsið eða í garðinum. Væri ekki skítt að lenda á þannig íbúð með útihúsi í garðinum fyrir vini og ættingja frá íslandi, þið vitið hver þið eruð ;)

Ég er semsagt í því að sækja um hús svo ég viti nokkurnvegin hvar við munum koma til með að búa uppá skóla og leikskóla fyrir krakkana. Freyr sækir svo um vinnur eins og enginn sé morgundagurinn. Samt dálítið vesen að sækja um vinnur í Noregi þar sem ekki alltaf er sami grunnurinn hjá þessum fyrirtækjum og alltaf þarf að endurtaka upplýsingar sem eru býsna langt ferli. Svo ef hann lendir á atvinnuumsókn þar sem hans upplýsingar eru fyrir í kerfinu þá kemur fagnaðaróp og hann sleppur við hátt í klukkutíma vinnu.

Þetta eru allt litlir kubbar sem þarf að púsla saman, vinna, húsnæði, þetta á allt eftir að koma í ljós og er jú stærsti liðurinn í öllum flutningunum og jafnframt mikilvægasti. Ég halla mér aftur í stólnum eftir alla netvinnuna í morgun og hlusta á enn einn storminn sem kollríður landinu okkar litla. Þessari eyju sem ekki allir úti í heimi vita einu sinni af en er þó orðin þekktari en fyrir 10 árum. Eyja sem útlendingar kalla tunglið og ég undirbý eldflaugina mína til brottfarar…

Skrefin í átt að flutningum

Þá eru að verða um tveir mánuðir síðan ég ákvað að flytja út. Síðan þá hafa margar spurningar brotist um í höfðinu. Ýmsar tilfinningar komið uppá yfirborðið, tilfinningar sem eflaust margir kannast við þegar stórar breytingar eru yfirvofandi. Kvíði í bland við tilhlökkun. Ég hef alltaf talið mig frekar hugrakka týpu og því er tilhlökkunin yfirsterkari kvíðanum. Sem betur fer, því ekki gott að hafa hann efst í farteskinu á leið til Noregs.

Ég hef frekar reynt að skipuleggja mig vel, lesið mér til um hvað skal gera þegar út er komið, bæði erlendar síður sem og íslenskar.

Hér eru nokkrir góðir hlekkir fyrir þá sem eru með sömu plön og ég og vilja lesa sér til:

https://www.facebook.com/pages/%C3%8DSLENDINGAR-%C3%8D-NOREGI/106464796870

(Íslendingar í Noregi). Mjög góð síða til þess að setja inn fyrirspurnir og spjalla við íslendinga sem eru staddir úti.

http://www.norden.org/is/nordurloend-fyrir-thig/flytja-innan-eda-til-nordurlanda/flytja-til-noregs

hér eru ýmsum spurningum svarað og nauðsynlegar upplýsingar fyrir þá sem eru á leið út.

Svo byrja bara að lesa sér til um hvernig allt virkar og hafa allt 100 % á hreinu, því ekki vill maður fara út og lenda svo í veseni um leið og stigið er á norska grund.

En já ég byrjaði að lesa fyrir nokkrum mánuðum og held ég sé orðin uppfull af hafnýtum upplýsingum og viti mínu viti, eða eins mikið og hægt er áður en haldið er af stað. Síðan hefur eitt stórt skref verið tekið, en maðurinn minn sagði upp vinnunni sinni í vikunni. Hörkugott jobb en tími til kominn að segja upp þar sem ekki eru nema fjórir mán. í að við förum. Hann er heppinn, góður í því sem hann gerir og jafnvel að hann geti unnið frá Noregi við það sem hann gerir hér heima í fjarvinnu, sem er bara frábært. Ég er svo að fara í skóla. Loksins fer fiðrildið hún Sandra í nám á háskólastigi. Ég lærði grafíska miðlun hér heima og var það frábærlega gaman, en því miður hef ég ekki fengið neina vinnu út á þá menntun. Þú þarft að vera hönnuður og með háskólamenntun til að fá bitastæð verkefni. Breyttir tímar frá því áður, því þegar mamma mín var ung þá þótti flott að vera búinn með framhaldsskólann. Nú er horft á háskólamenntun sem afar mikilvægan lið á ferilskránni. En jú ekki miskilja mig, það er hægt að fá vinnu hér heima, en þá erfið ummönnunarstörf fyrir sk%# og kanil. Fyrirgefið orðbragð. En sorgleg staðreynd að enn er verið að bjóða fólki uppá hlægilega lágar upphæðir fyrir 100% starf í heilan mánuð. Laun sem duga varla tvær vikur. En já, Ísland í dag.

Allir í fjölskyldunni eru að verða spenntir og börnin farin að tala meir og meir um flutningana. Miðjubarnið hann Stefán Kári fjögurra laufa smárinn minn spurði í morgun hvers vegna við værum aftur að flytja? Svo hugsaði hann sig um og blá augun með smá rafgulu flöktuðu er ævintýralegar staðreyndir brutust um í heilanum um hvers vegna við værum að fara. Svo komst hann að niðurstöðu! Já, vegna þess að Dagbjört ætlar að halda uppá afmælið sitt úti. :) Stundum gleymir maður hversu ung og óþroskuð þau eru, barnslegur hugurinn pælir minna í peningum, vinnum og menntun. Hann var bara kominn í dýragarðinn í Kristiansand sem Dagbjört talar svo mikið um, enda er hún svo mikill dýravinur. Við lærum svo norsku á cd diskum, eða hljóðplötum hehe, I’m old I know ;)

Svo það er mikil spenna og fögnuður innra með okkur öllum yfir þessari ákvörðun og hugur mömmunar flýgur yfir vötnin eins og hugur barnsins, staðnæmist á fjarlægri strönd. Engin spor í sandinum, jörðin fyrir framan öldurnar óskrifað blað sem bíður eftir smáum óreyndum fótum og hjóna sem í senn eru óörugg en samt þessi vissa að þessi lífsreynsla eigi eftir að færa þeim aukin styrk og þroska. blom1.jpg

logi.jpg

Börnin

Börnin þrjú

Þetta eru gullmolarnir:

Dabjört Freyja fagra meyja (verður 10 ára í sumar), segist ætla að halda uppá afmælið sitt í dýragarði, mikill söngfugl og díva.

Stefán Kári fjögurra laufa smári (verður 8 ára núna í mars), þarf á heppni fjögurra laufa smárans að halda því hann er dálítill klaufi og ör en mjög tilfinningaríkur og duglegur.

Ástþór Logi, köllum hann stundum álfinn því skammstöfunin er ÁLF (4 ára í sumar), algjör vitsmunavera, kunni litina tveggja ára og talaði eins árs.

Hér inná flokknum “börnin” mun ýmislegt skemmtilegt efni detta inn af krökkunum þrem.

Hér er fyrsta bloggið okkar!

Við erum fimm manna fjölskylda á Íslandi, nánar tiltekið í suðurbæ Hafnarfjarðar. Ástæða þess að við lentum hér er löng og ég fer ekki út í smáatriði hér, að minnsta kosti ekki þau fínustu, en í stórum dráttum þá líkist Hafnarfjörður mikið heimabæ mínum Akureyri og Suðurbærinn… Hmm… Hljómar bara vel, eins og það gæti verið hlýrra þar en í Norðurbænum. Sem er ekki rétt þar sem við erum hátt yfir sjávarmáli hér uppá hæðinni, sjáum að Perlu og Hallgrímskirkju úr eldhúsglugganum og út að Bessastöðum af svölum. Semsagt rokras#!$%. Fyrirgefið orðbragðið. En í dag sjáum við voða lítið út, þoka, þó svo sólin hafi umvafið okkur með mjúkum geislum sínum síðastliðna daga.

En nóg um veður, aðalástæða þess að við erum á leið yfir stóra ógvænlega hafið sem umlykur okkur íslendinga er ekki bara rokið, ekki hægt að kenna því um alltaf hreint, heldur vegna þess að ég hef alltaf verið óróleg týpa. Þarf alltaf að prófa allt sem mér dettur í hug að minnsta kosti einu sinni. Noregur hefur togað í mig síðan ég lá uppí rúmi á efri hæð einbýlishússins í innbænum með ísfólkið í hendi og roðnaði og blánaði í senn yfir rafmögnuðum tilfinningum og vafasömum töfrandi áhrifum. Það var þá sem ég trúði að karlmenn væru bjargvættir allra tilfinningaríkra kvenna og horfði forvitin til fjalla inní Eyjarfirði, í spurn um að þar byggi hinn eini rétti. En ég leitaði lengra en í fjöllin heima, því hér fyrir sunnan kynntist ég mínum eina aðeins 17 ára gömul og við eignuðumst börnin okkar þrjú. Lifðum svo hamingjusöm það sem eftir er… Eða það er ekki enn vitað, á eftir að koma í ljós en krossum fingur þó! :)

Eftir að ég átti miðjubarnið mitt fór ég aftur að kenna til þeirra áhrifa sem heimurinn úti hefur á mig, sérstaklega Noregur, þó ég hafi aldrei komið þangað. Það er hverfi í Breiðholti sem ekki allir vita af, það eru götur sem liggja niður við sundlaugina og menningarmiðstöðina sem ég kalla alltaf “norska hverfið mitt”. En þar standa hús sem minna óneitanlega á Noreg, lítil og krúttleg, fallega máluð, rauð, hvít, blá eins og hafið sjálft á góðum degi. Umkringd stórum görðum þar sem liggja leikföng í mjúku grasinu og þó börnin séu ekki úti við þá stundina sér maður þau fyrir sér hlaupa um, jafnvel berleggja í grænu grasinu með bros á vör. Hlaupandi gegnum úðara eða gosbrunn sem sér til þess að gróðurinn í kring fái næga vökvun. Einstaka köttur lúrir undir slúttandi greinum af háu tré, já þú heyrðir rétt, því í þessu hverfi eru há tré, ólíkt gróðrinum víða, til að mynda í Elliðárdalnum. Þar eru þessir kræklóttu runnar og harðgert lyng. Alíslenskt alveg.

En ekki miskilja mig, ég elska Ísland, margt sem við höfum umfram aðrar þjóðir og afar fallegt land. Í mér rennur bara heitara blóð og ég er orðin þreytt á að láta rokið kæla það niður meðan ég geng um norksa hverfið og læt mig dreyma. Við fluttum svo úr Breiðholtinu með þriðja gullmolann aðeins eins árs í Hafnarfjörðinn. Erum búin að vera í Hafnarfirði núna í rúm tvö ár, fimm ár með þeim tíma sem við bjuggum barnlaus á Reykjavíkurveginum. En nú ætlum við lengra, yfir hafið með flugi í júlí, vonandi verður hafið í góðu skapi þann dag og jafn blátt og bláasta húsið í breiðholti…