Hér er fyrsta bloggið okkar!

Við erum fimm manna fjölskylda á Íslandi, nánar tiltekið í suðurbæ Hafnarfjarðar. Ástæða þess að við lentum hér er löng og ég fer ekki út í smáatriði hér, að minnsta kosti ekki þau fínustu, en í stórum dráttum þá líkist Hafnarfjörður mikið heimabæ mínum Akureyri og Suðurbærinn… Hmm… Hljómar bara vel, eins og það gæti verið hlýrra þar en í Norðurbænum. Sem er ekki rétt þar sem við erum hátt yfir sjávarmáli hér uppá hæðinni, sjáum að Perlu og Hallgrímskirkju úr eldhúsglugganum og út að Bessastöðum af svölum. Semsagt rokras#!$%. Fyrirgefið orðbragðið. En í dag sjáum við voða lítið út, þoka, þó svo sólin hafi umvafið okkur með mjúkum geislum sínum síðastliðna daga.

En nóg um veður, aðalástæða þess að við erum á leið yfir stóra ógvænlega hafið sem umlykur okkur íslendinga er ekki bara rokið, ekki hægt að kenna því um alltaf hreint, heldur vegna þess að ég hef alltaf verið óróleg týpa. Þarf alltaf að prófa allt sem mér dettur í hug að minnsta kosti einu sinni. Noregur hefur togað í mig síðan ég lá uppí rúmi á efri hæð einbýlishússins í innbænum með ísfólkið í hendi og roðnaði og blánaði í senn yfir rafmögnuðum tilfinningum og vafasömum töfrandi áhrifum. Það var þá sem ég trúði að karlmenn væru bjargvættir allra tilfinningaríkra kvenna og horfði forvitin til fjalla inní Eyjarfirði, í spurn um að þar byggi hinn eini rétti. En ég leitaði lengra en í fjöllin heima, því hér fyrir sunnan kynntist ég mínum eina aðeins 17 ára gömul og við eignuðumst börnin okkar þrjú. Lifðum svo hamingjusöm það sem eftir er… Eða það er ekki enn vitað, á eftir að koma í ljós en krossum fingur þó! :)

Eftir að ég átti miðjubarnið mitt fór ég aftur að kenna til þeirra áhrifa sem heimurinn úti hefur á mig, sérstaklega Noregur, þó ég hafi aldrei komið þangað. Það er hverfi í Breiðholti sem ekki allir vita af, það eru götur sem liggja niður við sundlaugina og menningarmiðstöðina sem ég kalla alltaf “norska hverfið mitt”. En þar standa hús sem minna óneitanlega á Noreg, lítil og krúttleg, fallega máluð, rauð, hvít, blá eins og hafið sjálft á góðum degi. Umkringd stórum görðum þar sem liggja leikföng í mjúku grasinu og þó börnin séu ekki úti við þá stundina sér maður þau fyrir sér hlaupa um, jafnvel berleggja í grænu grasinu með bros á vör. Hlaupandi gegnum úðara eða gosbrunn sem sér til þess að gróðurinn í kring fái næga vökvun. Einstaka köttur lúrir undir slúttandi greinum af háu tré, já þú heyrðir rétt, því í þessu hverfi eru há tré, ólíkt gróðrinum víða, til að mynda í Elliðárdalnum. Þar eru þessir kræklóttu runnar og harðgert lyng. Alíslenskt alveg.

En ekki miskilja mig, ég elska Ísland, margt sem við höfum umfram aðrar þjóðir og afar fallegt land. Í mér rennur bara heitara blóð og ég er orðin þreytt á að láta rokið kæla það niður meðan ég geng um norksa hverfið og læt mig dreyma. Við fluttum svo úr Breiðholtinu með þriðja gullmolann aðeins eins árs í Hafnarfjörðinn. Erum búin að vera í Hafnarfirði núna í rúm tvö ár, fimm ár með þeim tíma sem við bjuggum barnlaus á Reykjavíkurveginum. En nú ætlum við lengra, yfir hafið með flugi í júlí, vonandi verður hafið í góðu skapi þann dag og jafn blátt og bláasta húsið í breiðholti…