Nú er nóg að gera! :)

Já nú er heldur betur nóg að gera. Við erum farin að sækja um íbúðir og hús þarna úti og má áætla að ég sé búin að senda póst á 20 manneskjur varðandi íbúð. Það er greinilegt að einbýlishús eru í meirihluta og ekki oft að maður sjái fjölbýli, en tvíbýli og raðhús eru einnig algeng. Svo byggja norðmenn oftar en ekki heldur lítil hús, en fyrir þeim eru 90 fm heilmikið þó svo að finnist stór hús inná milli. Eins og í sveitum og úthverfum. Norðmenn eru svo krúttlegir og þar sem við lendum er útlit og umhverfi sko ekki skítt. Kristiansand eða Kristjánssandur á góðri íslensku (við íslendingar þurfum alltaf að vera með okkar heiti yfir allt), já þessi borg er þekkt fyrir að vera olíuborg og umhverfið eru strendur og aftur strendur með nokkrum vötnum og háum skógum. Svo eru grænar eyjar á víð og dreif rétt fyrir utan. Mig hefur dreymt um þennan stað í átta ár. En þó húsin séu sum lítil þá er oft framlengt með útihúsum, en þau eru oft krúttlega máluð og vel til höfð til hliðar við húsið eða í garðinum. Væri ekki skítt að lenda á þannig íbúð með útihúsi í garðinum fyrir vini og ættingja frá íslandi, þið vitið hver þið eruð ;)

Ég er semsagt í því að sækja um hús svo ég viti nokkurnvegin hvar við munum koma til með að búa uppá skóla og leikskóla fyrir krakkana. Freyr sækir svo um vinnur eins og enginn sé morgundagurinn. Samt dálítið vesen að sækja um vinnur í Noregi þar sem ekki alltaf er sami grunnurinn hjá þessum fyrirtækjum og alltaf þarf að endurtaka upplýsingar sem eru býsna langt ferli. Svo ef hann lendir á atvinnuumsókn þar sem hans upplýsingar eru fyrir í kerfinu þá kemur fagnaðaróp og hann sleppur við hátt í klukkutíma vinnu.

Þetta eru allt litlir kubbar sem þarf að púsla saman, vinna, húsnæði, þetta á allt eftir að koma í ljós og er jú stærsti liðurinn í öllum flutningunum og jafnframt mikilvægasti. Ég halla mér aftur í stólnum eftir alla netvinnuna í morgun og hlusta á enn einn storminn sem kollríður landinu okkar litla. Þessari eyju sem ekki allir úti í heimi vita einu sinni af en er þó orðin þekktari en fyrir 10 árum. Eyja sem útlendingar kalla tunglið og ég undirbý eldflaugina mína til brottfarar…